
Fréttabréf Engidalsskóla júní 2021
Ábyrgð - Virðing - Vinátta
Fréttabréf Engidalsskóla
Nú fer fyrsta skólaári Engidalsskóla, með nýja sjálfstæðið sitt, að ljúka. Við höfum þurft að takast á við allskyns áskoranir en við vonum að flestir séu sáttir og upplifi að þeir hafi fengið að njóta sín. Næsta vetur munu nemendur á miðstig fá að hafa enn meiri áhrif á nám sitt þegar þeir fá val í 80 mínútur á viku. Við höfum valið að kalla þessa tíma áhugasvið og teljum að við séum búin að setja upp það áhugaverða valmöguleika að allir finni eitthvað við sitt hæfi. Nemendur voru hafðir með í ráðum og komu með tillögur að áhugasviðstímum, þeir verða svo látnir velja áður en skóla líkur í vor.
Önnur nýjung næsta vetur verður samþætt skóla- og frístundastarf. Á miðstigi verða seinni frímínútur þannig að nemendur hafa val um frjáls verkefni bæði úti og inni. Fram hafa komið hugmyndir að nokkrum klúbbum sem kynntir verða betur í haust en gera má ráð fyrir að hægt verði að vera inni og spila, vera í leikjum sem þjálfa félagsfærni sérstaklega, kubba, tefla, föndra, frjáls útileikur, tálgun, fótbolti og fleira. Á yngsta stigi verður líka boðið upp á klúbba starf á miðjum skóladegi (mun liggja að hádegis matartímanum) í líkingu við það sem verður á miðstig.
Í vetur höfum við verið að auka vægi upplýsingatækninnar í kennslu í öllum árgöngum. Við höldum áfram að græja okkur og mennta okkar fólk og sjáum bara fram á skemmtilega tíma með fjölbreyttu skólastarfi þar sem tæknin mun nýtast okkur enn betur í fjölbreyttu námi.
Í mörg ár hefur Engidalsskóli (og Víðistaðarskóli á meðan þeir voru sameinaðir) starfað samkvæmt uppeldisstefnu sem í daglegutali er nefnd SMT. Eftir samtal stjórnenda við starfsmenn, kynningar og kannanir höfum við ákveðið að skipta um stefnu og taka þess í stað upp Uppeldi til ábyrgðar sem í daglegu tali er kölluð uppbyggingastefnuna. Innleiðingaferlið mun taka einhvern tíma og vonum við að allir sýni því skilning.
Annars þökkum við fyrir veturinn og vonum að við fáum að sjást meira og vera í meiri samskiptum á næsta skólaári.
Með bestu kveðju stjórnendur Engidalsskóla.
Skólaslit í Engidalsskóla vorið 2021
Lokað er í Álfakoti þennan dag.
kl. 8:30 Skólaslit 1.-2. bekkur.
kl. 9:30 Skólaslit 3.-4. bekkur.
kl. 10:30 Skólaslit 5.-6. bekkur.
Skólasetning ágúst 2021
Heilsueflandi grunnskóli - Líðan, hreyfing og nestismál
Engidalsskóli er heilsueflandi grunnskóli, hugmyndin um heilsueflandi skóla er byggð á Ottawa-sáttmála Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um heilsueflingu. Áhersluþættirnir eru átta; nemendur, nærsamfélag, hreyfing og öryggi, mataræði og tannheilsa, heimili, geðrækt, lífsleikni og starfsfólk.
Næsta vetur líkt og í vetur munum við leggja mikla áherslu á lífsleikni og geðrækt með áherslu á sjálfsmynd nemenda. Nemendum gefst tækifæri til að taka þátt í sjálfsræktarsmiðju þar sem grunnurinn verður námsefni, UPRIGHT, sem verið er að þróa.
UPRIGHT er samevrópskt verkefni með það að markmiði að þróa námsefni og námsumhverfi sem á að stuðla að vellíðan og seiglu meðal ungmenna með heildrænni nálgun í skólasamfélaginu. Við erum afskaplega stolt af því að efnið verður prufukeyrt í Engidalsskóla.
Næsta vetur stefnum við á að setja viðmið um það nesti sem við teljum að henti grunnskólabörnum, þetta gerum við af gefnu tilefni þar sem við sjáum sum börn koma með mjög næringasnautt nesti. Við munum styðjast við viðmið Landlæknisembættis og köllum eftir góðu samstarfi við foreldra. Vel nærð börn eiga betra með að einbeita sér og mataræði getur haft áhrif bæði á lærdómsgetu og hegðun. Börn verja stórum hluta dagsins í skólanum eða á skólasvæðinu og því er mikilvægt að þau fái hollan og góðan mat í skólanum.
Íþróttatímum á miðstigi verður fjölgað og frímínúturnar kl. 9:30 hjá yngsta stigi verða lengdar í 30 mínútur. Þá má gera ráð fyrir að við hvetjum alla til að passa upp á svefninn og vinnum örugglega með hann með nemendum.
Lestur
Á lesfimiprófi í september lásu nemendur samtals 13.161 orð, á prófinu í maí lásu þeir samtals 18.839 orð og hafa bætt sig um 5.678 orð. Á þessu skólaári erum við búin að vera með þrjú lestrarátök og eins hafa nemendur verið duglegir að skrá sig í bókaklúbba sem eru í boði á bókasafni skólans. Síðasta lestrarátak var í maí rétt áður en nemendur fóru í lesfimipróf. Á meðfylgjandi myndum má sjá lestrarsólir, einn geisli fyrir hverja lesna bók.
Það er ánægjulegt að segja frá því að nemendur eru yfir landsmeðaltali í fimm árgöngum, eins og sjá má á myndum hér fyrir neðan. Framfarir voru ekki einungis í leshraða heldur lásu nemendur réttar og eins var framför í lesskilningi sem er ekki síður mikilvægt fyrir allt nám nemenda.
Lestur er ekki eingöngu þjálfaður við að lesa texta í bók í umhverfinu eru t.d. götuskiltin og svo er hægt að æfa sig á að lesa innihladslýsingar á umbúðum. Stök orð má finna 100.ord.is fínn vefur til að læra orðmyndir og auka orðaforða. Bókasafn Hafnarfjarðar er einnig með sumarlestrarátak og er hægt að ská sig hér.
Um leið og við þökkum foreldrum/forsjáraðilum fyrir góða samvinnu með lestrarþjálfunina í vetur. Viljum við benda á mikilvægi þess að nemendur haldi áfram að lesa yfir sumartímann til að viðhalda þeirri færni sem þeir hafa náð nú þegar. Með auknum orðaforða eykst bæði færni í lestri og lesskilningi nemanda því er mikilvægt að einhverskonar lestrarþjálfun fari fram allan ársins hring.
Breytingar á skólahúsnæðinu
Til að þjálfa fingrasetningu dustuðum við rykið að gömlu góðu ritþjálfunum sem leyndust í einni geymslunni okkar en þeir voru sennilega síðast notaðir fyrir fæðingu nemenda okkar en gera vissulega sitt gagn og kom okkur á óvart að þeir væru í góðu lagi.
Nemendaþing
Nemendaferðir
1. bekkur heimsótti Húsdýragarðinn
2. bekkur fór upp að Hvaleyrarvatni og heimsókn í hesthús
3. bekkur fór að Hlíðarþúfum við Kaldárselsveg og í heimsókn í hesthús
4. bekkur heimsótti Heiðmörk
5. bekkur fór á Þingvelli og fengu leiðsögn þar
6. bekkur heimsótti siglingaklúbb og fékk fræðslu þar
Ævintýri þriðja bekkjar
Þriðji bekkur fór í skemmtilet ferðalag í skógræktargirðinguna á móts við hesthúsabyggðina að Hlíðarþúfum við Kaldársselsveg. Þau tóku strætó og gengum síðasta spölinn. Þau vorum rétt komin inn á göngustíginn þegar þau urðu vör við hrafna sem létu mjög ófriðlega og görguðu mikið.
Stuttu síðar rákust þau á laupinn þeirra með fjórum stálpuðum ungum. Hópurinn skoðaði laupinn og flýtti sér síðan í burtu af tillitsemi við parið. Mynd af laupnum má sjá á mynd hér til hliðar.
Skemmtileg verkefni
Á þessum myndum má sjá nemendur í 1.-2. bekk í upplýsingatækni smiðju. Nemendur voru þarna að vinna með forritið Masterpiece OSMO þar sem þeir teikna og lita myndir sem speglast frá spjaldtölvunni á blað fyrir framan þá.
Gleðin var mikil meðal nemenda í kennslustundinni og áhug á verkefninu.
Engidalsskóli
Email: engidalsskoli@engidalsskoli.is
Website: https://www.engidalsskoli.is
Location: Breiðvangur 42, Hafnarfjordur, Iceland
Phone: 555 4433