Fréttabréf Naustaskóla
8. tbl. 12. árg desember 2020
Kæra skólasamfélag
Nú þegar þetta er skrifað er enn óljóst hvor að skólahald verði eðlilegt fyrir jólafrí. Þrátt fyrir það höldum við fast í okkar jólahefðir. Á mánudaginn skreyttu nemendur skólann, við erum búin að hafa jólahúfu/peysudag og í næstu viku verða þemadagar í tvo daga. Þema þessara daga verður að þessu sinni barnasaáttmáli sameinuðu þjóðanna og unnið út frá réttindum barna. Einnig fléttum við jólaföndri inn í þessa þemadaga og ætlunin er að búa til fallegt tré sem verður sameiginlegt verkefni allra nemenda og prýða mun vegg í matsalnum okkar. Við munum einnig leitast við að halda litlu jólin eins hefðbundin og hægt verður miðað við aðstæður.
Fyrir hönd starfsfólks Naustaskóla þakka ég fyrir gott samstarf á þessu skrítna skólaári og þakka ykkur einnig fyrir stuðning og sveigjanleika þegar breytingar komu með stuttum fyrirvara. Starfsfólk Naustaskóla á einnig skilið hrós fyrir elju, góða samvinnu og framúrskarandi lausnaleit til þess að skólastarfið geti gengið sem best við erfiðar aðstæður.
Gleðileg jól!
Bryndís Björnsdóttir, skólastjóri.
Skólastarf til 9. des
Gildandi sóttvarnarreglur eru í hávegum hafðar í Naustaskóla.
Þær eru einfaldar en samt er gott að fara reglulega yfir þær með börnunum svo allir fylgi þeim eftir:
1. Verum dugleg að þvo okkur um hendur með sápu og vatni eða nota spritt. Alltaf skal spritta hendur við komu í matsal. (1. - 4. bekkur)
2. Forráðamenn koma ekki inn í skólann (nema afar brýna nauðsyn beri til og þá í samráði við skólann) og þá þurfa þeir að nota andlitsgrímu og spritta hendur við inngang.
3. Sýnum virðingu í samskiptum og virðum nándarmörk sem eru 2 metrar innan skólans fyrir fullorðna einstaklinga og nemendur í 8. - 10. bekk.
4. Starfsfólk og nemendur í 8. - 10. bekk þurfa að bera andlitsgrímur ef ekki er hægt að ná 2 metra fjarlægðarmörkum.
5. Ef nemendur hafa kvefeinkenni, sáran háls, hitaslæðing, miklar magakvalir eða beinverki skal halda þeim heima og tilkynna veikindi.
6. Láta skal skólann vita ef upp koma Covid19 smit á heimili svo hægt sé að gera viðeigandi ráðstafanir.
Á döfinni í desember
1. des - Frjálst nesti og sparifatadagur
2. des - Jólahúfu og peysu dagur
10 - 11. des - Jóla- og barnasáttmála þema
21. des - Litlu jól
22. des - Jólafrí
4. jan - Starfsdagur ( frístund lokuð )
5. jan - Fyrsti skóladagur eftir jólafrí
Eineltishnappur
Við viljum benda á að inn á heimasíðu skólans undir yfirskriftinni Stuðningur er að finna tengil inn á eineltisáætlun Naustaskóla. Hvetjum lesendur til þess að kynna sér hana. Nú höfum við bætt við hnappi á heimasíðuna þar sem foreldrar og nemendur geta tilkynnt grun um einelti.
Andlitsgrímur og unglingastigið
Litlu Jólin 2020
Það er margt sem breytist í skólalífinu þegar heimsfaraldur er annars vegar. Eitt af því eru Litlu jólin. Ef tekið er mið af þeim reglum sem nú gilda í samfélaginu og um skólastarfið, verður ekki hægt að halda hefðbundin litlu jól þetta árið. Við munum því leggjast undir feld og finna góða leið til að allir fái að njóta aðventunnar í skólanum. Allar nánari upplýsingar munu koma frá umsjónarkennurum þegar nær dregur.
Mikilvægt í myrkrinu!!!
Jólaandinn 2020
Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá starfinu: