NÁMIÐ FRAMUNDAN
Frá Menntaskólanum á Ísafirði 15. mars 2020
Kæru nemendur
Nú flytjum við námið okkar alfarið á netið í þeim áföngum þar sem það er hægt og höldum ótrauð áfram. Moodle verður aðalverkfærið okkar og það þekkið þið vel. Markmið okkar er að nemendur verði fyrir sem minnstum töfum í námi. Fyrirkomulag verknámsáfanga í framhaldi af skólalokun er verið að skoða.
Þó þið getið ekki mætt í skólahúsnæðið munum við gera allt til að sinna ykkur eins vel og hægt er. Hægt verður að fá símatöl eða viðtöl yfir netið. Ritari mun taka við erindum og koma þeim áleiðis. Hægt er að hringja í síma 450 4400 eða senda tölvupóst á misa@misa.is
Nú reynir á alla að námið gangi upp
Skólalokunin næstu 4 vikurnar hefur ýmiss konar áhrif á námið ykkar. Nú reynir á ykkur og okkur hér í MÍ að láta námið ganga upp. Það þarf sjálfsaga til að sinna náminu að heiman. Við hvetjum ykkur til að halda góðri rútínu - ekki missa svefninn úr böndum, borðið hollt, hreyfið ykkur og sinnið náminu. Mikilvægt er að hugsa skólalokuninina ekki sem frí og ástæðu til að slappa bara af eða vera allan daginn í tölvuleikjum/símanum eða fara að vinna! Skólalokuninin þýðir einfaldlega að námið fer fram á annan hátt en þið eruð vön.
Ef ykkur finnst erfitt að takast á við námið við þessar breyttu aðstæður látið okkur vita og við gerum það sem við getum til að aðstoða ykkur. Þið getið haft samband við kennarana ykkar, Stellu námsráðgjafa (stella@misa.is) eða Heiðrúnu aðstoðarskólameistara (heidrun@misa.is)
Samband við kennara og starfsfólk skólans
- Hægt er að hafa samband við kennara í gegnum tölvupóst og Moodle eins og áður. Netföng starfsfólks má finna á heimasíðu skólans, https://misa.is/skolinn/starfsfolk/
- Hægt er að hafa samband við stjórnendur í síma 450 4400 eða í gegnum tölvupóst. Jón Reynir skólameistari er með netfangið jon@misa.is og Heiðrún aðstoðarskólameistari er með netfangið heidrun@misa.is
- Hægt er að hafa samband við skrifstofu skólans í síma 450 4400 og á netfangið misa@misa.is
Fyrirmæli varðandi námið
Nemendur mega eiga von á að kennarar óski eftir að þeir séu tiltækir, t.d. á fjarfund eða í umræður, eftir því sem stundatafla þeirra segir til um. Kennarar munu nota ýmiss konar tækni, þar á meðal Teams sem er hluti af Office 365, sem verður þá kynnt sérstaklega. Það er því mikilvægt að nemendur fylgist mjög vel með fyrirmælum kennara á Moodle.
Tölvuaðstoð
- VANTAR ÞIG TÖLVU? Ef þið hafið ekki aðgang að tölvum heima fyrir og viljið fá lánaða tölvu vinsamlegast sendið tölvupóst á Elínu ritara (misa@misa.is)
- VANDRÆÐI MEÐ OFFICE: Ef þið eruð í vandræðum með Office 365 sendið tölvupóst á Guðjón Torfa tölvumsjónarmann (gudjonts@misa.is)
- VANDRÆÐI MEÐ MOODLE-AÐGANG: Ef þið eruð í vandræðum með lykilorð á Moodle er hægt að senda tölvupóst á Elínu ritara, misa@misa.is
Gerum þetta saman!
Við í MÍ gerum okkur grein fyrir að samkomubannið og skólalokunin hefur miklar breytingar í för með sér fyrir ykkur og það sama á við um starfsfólk skólans. Þetta er stórt verkefni sem við erum öll að takast á við. Mikilvægt er að við nálgumst þessar breytingar saman og förum eftir tilmælum stjórnvalda með opnum hug og jákvæðu hugarfari.
Markmið okkar allra er að ljúka þessari önn eins og best verður á kosið miðað við aðstæður. Við ítrekum að ef þið hafið áhyggjur af námslegri stöðu ykkar eða finnst erfitt að breyta um námsfyrirkomulag látið okkur þá vita. Gerum þetta saman!
Að lokum hvetjum við ykkur til að fylgja fyrirmælum almannavarna og landlæknis. Við hvetjum ykkur einnig til að sinna náminu vel á meðan á lokun stendur og huga vel að ykkur sjálfum og fólkinu í kringum ykkur. Ekki hika við að hafa samband við okkur ef eitthvað er.
Menntaskólinn á Ísafirði
Email: misa@misa.is
Website: www.misa.is
Location: Torfnes, Ísafjörður, Iceland
Phone: 450 4400
Facebook: https://www.facebook.com/menntaisa/